Veftré English

Gönguleiðir

Hörgsnes
Þar er Gíslahellir og sérkennilegir klettar með ótal holum og skútum. Hörgurinn er götóttur klettastapi. Stutt er í fallega fjöru. Þar úti fyrir má oft sjá seli í sólbaði.

Stikuð gönguleið, hálf til ein klukkustund. Hækkun um fimmtíu metra.

Smiðjutóftin
Um tvöhundruð metra ofan þjóðvegar, rétt vestan Þingmannaár er gömul tóft, merkt með gulu priki svo sem títt er um fornminjar. Í tóftinnni eru leifar af viðarkolum. Hún er eldforn og er sagt að hér hafi staðið smiðja Gests Oddleifssonar hins spaka, en það er þó ólíklegt. Í það minnsta hafa honum þá verið frátafasamar smíðarnar því tuttugu kílómetrar eru út að Haga þar sem Gestur bjó.

Þingmanná
Skemmtilegt árgil með fallegum fossum, stórum og smáum. Vel má ganga bak við einn þeirra, enda var hann notaður við gerð kvikmyndanna “Útlagans” og “Nonna og Manna”. Í gilinu má sjá enda á berggangi. Þar hefur átt sér stað kvikuhlaup, líkt og gerðist við Kröflu í kringum 1980. Slík kvikuhlaup eiga sér stað á að minnsta kosti eins kílómetra dýpi svo drjúgt hafa jöklar skafið Þingmannadal.

Stikuð einnar klukkustundar gönguleið. Hækkun tvöhundruð metrar.

Vatnsdalur
Fjöllin og skógurinn, vatnið og áin skapa fallega umgjörð um þægilegar gönguleiðir báðum megin í Vatnsdal. Á Lambagilseyrum, austan vatns er birkið með því hæsta sem gerist á Vestfjörðum. Í dalbotninum eru nokkrir snotrir fossar.

Athugið að Vatnsdalsá og Útnorðursár, sem koma niður í dalbotninn vestanverðan eru oftast erfiðar yfirferðar og geta verið hættulegar.

Stikuð tveggja klukkustunda gönguleið að Lambagili. Engin hækkun. Aðrar leiðir að eigin vali.

Smalahellan
Innarlega í dalnum vestanverðum er Smalahellan, gróðurlaus blettur þar sem uppsprettuvatn bunar niður hallandi klöpp. Sagan segir að enginn teldist hæfur sem smali í Vatnsdal nema sá hinn sami gæti hlaupið yfir helluna, en það er öllum ófært sakir hálku og bratta.

Helluvatn
Stöðuvatn vestan og ofan við hótel Flókalund. Stutt fjallganga sem skapar möguleika á að skoða svæðið frá öðru sjónarhorni með lítilli fyrirhöfn. Gott útsýni yfir hótel og orlofsbyggð.
Stikuð tveggja klukkustunda gönguleið að Helluvatni. Hækkun þrjúhundruð metrar

Pennugil
Hrikalegt gljúfur með skemmtilegum bergmyndunum. Í gilinu er volgra sem vegagerðarmenn nýttu til baða. Stikuð hálfrar klukkustundar gönguleið. Hækkun um fimmtíu metrar.

Lómfell
Fyrsta fjall sem klifið var á Íslandi og þar var landinu gefið nafn sitt. Gott útsýni um Breiðafjörð og sunnanvert Vestfjarðahálendið. Auðnin og víðáttan eru skemmtileg tilbreyting frá algrónu láglendi milli brattra fjalla.

Merkt tveggja til þriggja klukkustunda gönguleið. Hækkun þrjúhundruð og fimmtíu metrar.

Surtarbrandsgil
Gilið er ekki innan friðlandsins en það nýtur sérstakrar friðunar sem náttúruvætti. Þar er óheimilt að raska eða fjarlægja nokkurn hlut en hægt er að fá leyfi til umferðar. Surtarbrandsgil er einn þekktasti fundarstaður steingervinga á landinu. Þar má sjá tólf milljón ára gróðurleifar frá tertíer. Meðal tegunda sem þar hafa verið algengar eru risafura, hlynur, magnolía og beyki.

Hálfrar annarar klukkustundar gönguleið. Hækkun um tvöhundruð metrar.

Flókatóftir
Fornar tóftir og friðlýstar eru rétt vestan bryggjunnar á Brjánslæk, kenndar við Hrafna-Flóka.

Fimm mínútna gönguleið.

Heimild: ust.is – Umhverfisstofun Íslands